149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:45]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður kom inn á mál sem ég fékk tækifæri til þess að spyrja hv. þm. Birgi Þórarinsson út í fyrr í kvöld. Og mér finnst það vera að fá smátt og smátt, eftir því sem á líður, meira vægi í þessari umræðu, þ.e. þessi stóra mynd í tengslum við þróun stjórnmálanna og hvað þriðji orkupakkinn og meðferð þess máls segir okkur um það hvernig stjórnmálin eru að breytast, en því miður ekki endilega á jákvæðan hátt. Þau eru að breytast með þeim hætti að flokkarnir eru ekki aðeins farnir að leyfa sér að svíkja kosningaloforð, sem því miður hefur nú gerst í gegnum tíðina, að flokkar hafi ekki staðið við kosningaloforð sín, heldur eru þeir farnir að leyfa sér að svíkja eigin stefnu, eigin grundvallarstefnu, sálina í flokkunum ef svo má segja. Þetta er ískyggilegt vegna þess að þetta varðar lýðræðið og virkni þess.

Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi í þessum miklu umræðum, mikilvægu og nauðsynlegu, náð að veita því athygli að í dag fóru fram kosningar í Bretlandi til Evrópuþingsins sem enginn hélt nú að færu fram vegna þess að Bretar voru búnir að ákveða að segja sig úr ESB. En það hefur gengið svo treglega að þeir neyðast til þess þremur árum eftir að þeir ákváðu að yfirgefa ESB að taka þátt í kosningum til ESB-þingsins. Þar stefnir í algjöran pólitískan jarðskjálfta.

Sér hv. þingmaður einhver líkindi með því sem er að gerast hér og stöðunni í Evrópusambandinu í ljósi þess að þar gerðu flokkar einmitt þetta, þeir sviku ekki aðeins kosningaloforð, (Forseti hringir.) þeir sviku stefnu og sál sinna flokka?