149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:33]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, bölvuð gögnin og staðreyndirnar. Það er ekki lítið búið að eyða orku í að berja á okkur Miðflokksmönnum um að við séum stöðugt að fara fram með staðlausa stafi og leggja fram einhverjar rakaleysur í þessari rökræðu um innleiðingu þriðja orkupakkans. Ég get sagt fyrir mig að mér þykir tiltölulega óþægilegt að hafa fylgst núna með þessari umræðu orð fyrir orð, leyfi ég mér að segja, frá upphafi síðari umr.

Kjarnarökin sem stuðningsmennirnir leggja til í umræðuna eru hinir meintu fyrirvarar sem eru þeim göllum haldnir sem við þekkjum orðið mætavel og síðan þessi neytendavernd og það mikla kostnaðarhagræði sem af slíkum umskiptum eða tilfærslu á milli orkusala á að hljótast.

Nú þegar blasir við að hvorugt heldur, eru fleiri kjarnarök sem hv. þingmaður sér í fljótu bragði að virðast hafa verið meira til punts frekar (Forseti hringir.) en að raunveruleikinn styðji við þau?