149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:56]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Það sem hv. þingmaður er þekktur fyrir og hefur getið sér gott orð fyrir er að ræða málefni landsbyggðarinnar. Er það vel vegna þess að landsbyggðin hefur átt undir högg að sækja og má segja að vegið sé að landsbyggðinni með ýmsum hætti. Við horfum á heilbrigðisþjónustuna, við horfum á hinn svokallaða kolefnisskatt ríkisstjórnarinnar sem hefur hækkað umtalsvert frá því að þessi ríkisstjórn tók við völdum. Í fjárlögum þessa árs fara um 5,9 milljarðar í kolefnisskatt og bitnar hann sérstaklega illa á landsbyggðinni, þannig að eiginlega má segja að vegið sé að landsbyggðinni þegar kemur að þessum málum, sérstaklega þegar kemur að raforkuverði.

Ég hef rakið í mínum fyrri ræðum hvernig raforkuverðið hækkaði við innleiðingu orkupakka eitt og tvö og við nýju raforkulögin 2003, en ef við lítum á upplýsingar frá Alþýðusambandi Íslands er rætt um gríðarlega hækkun á raforku um mitt ár 2008, um tæplega 30%. Hún bitnaði sérstaklega á landsbyggðinni. Tekið er fram í úttekt sambandsins að hjá þeim sem búsettir voru í dreifbýli hafi raforkukostnaður hækkað um tæp 30% frá því um mitt ár 2008. Þetta er eiginlega önnur hækkun, fyrst árið 2003 og svo árið 2008. Talað er um að raforkukostnaðurinn á Vestfjörðum hafi hækkað umtalsvert. (Forseti hringir.)

Má ekki eiginlega segja, hv. þingmaður, að hreinlega sé vegið að landsbyggðinni, sérstaklega í þessum orkupakkatilskipunum?