149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:42]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Einn af þeim álitsgjöfum sem veittu umsögn um þetta mál — og nú verð ég eiginlega að hefja ræðu mína á því að segja að það lítur þannig út að þeir aðilar sem fengu að koma fyrir hv. utanríkismálanefnd hafi líka verið að nokkru leyti handvaldir vegna þess að þegar málið var tekið út var enn þá þó nokkur listi gesta sem fékkst ekki tekinn inn á nefndarfund — en Hagsmunasamtök heimilanna sendu inn umsögn um málið. Þau lýstu sig mótfallin þriðja orkupakkanum og leggja til að mistök fortíðarinnar verði ekki endurtekin. Ef ég má lesa örlítinn bút, með leyfi hæstv. forseta, þá segir:

„Sporin hræða. Stjórnmálamenn, eftir ráðgjöf valinna sérfræðinga, einka- og markaðsvæddu bankana með skelfilegum afleiðingum ásamt því að gefa yfirráðin yfir fiskimiðunum okkar til fárra útvaldra sem síðan hafa makað krókinn.“

Þetta er skoðun þeirra. Þá segja þau, með leyfi forseta:

„Endurtökum ekki mistök fortíðarinnar. Höldum orkunni okkar í þjóðareigu, því þar liggja hagsmunir heimilanna um alla framtíð.“

Það segir síðar í álitinu og ég get í sjálfu sér alveg tekið undir þau orð að hluta. Þar segir, með leyfi forseta:

„Hagsmunasamtökin vilja jafnframt benda á að hvorki ráðherrar, stjórnmálaflokkar, valdir sérfræðingar eða aðrir sem mæla með þriðja orkupakkanum, munu bera nokkra ábyrgð á gjörðum sínum þegar afleiðingar þeirra skella af fullum þunga á komandi kynslóðum.“

Þessu er í sjálfu sér afskaplega erfitt að afneita með öllu, vegna þess að svona málflutningur hefur líka komið fram meðan við höfum verið að ræða málið, þ.e. að þeir sem sitja uppi með afleiðingarnar af því sem við erum að gera núna eru börnin okkar og barnabörnin. Það eru í sjálfu sér lítil líkindi á því að við sem erum orðin eldri hér á þingi verðum fyrir einhverjum óþægindum, ef svo má segja, af því sem gert verður en aftur á móti mun þetta skipta verulegu máli til framtíðar.

En auðvitað var ekki hlustað á þetta sjónarmið og ekki veit ég af hverju. En það var svo sem ekki gert mikið með þessa umsögn. Í sjálfu sér er kannski ekki von til þess að svo sé gert þegar ríkisstjórnarflokkarnir hlusta ekki einu sinni á sína eigin stuðningsmenn og þegar menn eru komnir í hlutverk sem eru alveg ný, samanber það að Vinstri græn leiði markaðsvæðingu orkulinda á Íslandi, sem maður hélt að myndi ekki gerast.

En þegar maður eldist kemur lífið manni samt á óvart. Að þessu leyti til hefur það komið á óvart að það skuli verða hlutskipti Vinstri grænna að markaðsvæða orkuauðlindir þjóðarinnar með þeim hætti sem mun gerast þegar þessi orkutilskipun verður komin í íslenskan rétt og engin leið er til baka, nema leið sem ég held að enginn vilji fara, þ.e. að segja EES-samningnum upp í heilu. En þetta mál er svo vanreifað og svo illa úr garði gert að sú er meginhættan.

Það er alveg rétt sem fram hefur komið í umræðum okkar um málið að samþykkt þessa orkupakka (Forseti hringir.) mun leiða til þess að menn munu verða, og þá er ég að tala um almenning, miklu gagnrýnni á EES-samstarfið í heild en áður.