149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:48]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir ræðuna. Það sem hv. þingmaður kom inn á er samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið og hvort hann væri undir.

Mig langar til að rifja upp að eini þingmaðurinn, sá eini sem hefur staðið hér í ræðustól og haldið því raunverulega fram að það væri kostur, það væri einhver kostur að eiga við þann samning með því hreinlega að segja honum upp, var hæstv. utanríkisráðherra í fyrri umr. um þetta mál. Það væri eins konar þrautavari að ef fyrirvararnir héldu ekki væri bara ein leið út úr því og það væri að segja samningnum upp. Hann ítrekaði að hann væri ekki Evrópusinni og hefði aldrei verið — ég man nú ekki hvort það var úr þessum ræðustól eða á öðrum vettvangi sem hann talaði um að hann væri einn af stofnendum Heimssýnar, sem eru samtök sem berjast á móti Evrópusambandinu, eða eru alla vega ekki fylgjandi inngöngu þangað. Það má vel vera að hæstv. utanríkisráðherra meti það sem svo að það sé raunhæfur kostur fyrir Ísland.

En ég held að enginn vilji sjá það að við göngum út úr því ágæta samstarfi sem við eigum við okkar ágætu nágrannaþjóðir og tel að það yrði ekki spor til gæfu fyrir Ísland eða aðhafast neitt í þá veruna að það ógni samningnum. En ég tel í sömu hendingu (Forseti hringir.) að leiðin sé að fara eftir samningnum og vísa málinu aftur til sáttameðferðar í sameiginlegu EES-nefndinni. Getum við hv. þingmaður verið sammála það?