149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:26]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Þorvaldssyni fyrir andsvarið. Það er nú þannig að við bonus pater, félagi minn, höfum svo sem ekki verið samferða í gegnum lífið skref fyrir skref, en oft erum við á svipuðu róli, vona ég. Eftir að hafa hlustað á umræður við síðari umr. þessa máls þá tel ég alveg fullvíst að hann sæi skynsemi í því að taka málið af dagskrá, fresta því, taka sér þann tíma sem til ráðstöfunar er og opna það aftur í haust. Því að bonus pater, vini okkar, væri fullljóst að þau álitaefni sem komið hafa fram hér við síðari umr. eru þeirrar gerðar að það væri engin skynsemi í því að stofna eigin hag og fjölskyldunnar í óvissu út frá lélegum og takmörkuðum gögnum og á köflum einhvers lags — ég ætla nú alls ekki að nota orðið rangfærslur, en búið er að setja ansi mörg rök og innleiðingar í búning í öðrum litum en raunin er þegar grannt er skoðað.

Ef við horfum bara á fyrirvarana, hversu haldlitlir þeir virðast vera, ef við horfum á hina meintu neytendavernd, sem stuðningsmenn segja að sé að koma inn núna, en kom inn með fyrsta og öðrum orkupakkanum í meginatriðum o.s.frv., held ég, að þessu öllu virtu, að bonus pater myndi halla sér aftur í sætinu og segja: Nú frestum við þessu fram á haust.