149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:27]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. Þorsteini Sæmundssyni fyrir ræðuna. Ég hef verið að velta fyrir mér því sem hann sagði varðandi stjórnskipunarvandann, sem lögfræðilegir ráðunautar ríkisstjórnarinnar hafa verið að benda á að sé hugsanlega fleiri en eitt ákvæði og að í reglugerðum Evrópusambandsins, sem nú á að innleiða, sé að finna ákvæði sem innihaldi slíkt valdframsal til stofnana, alþjóðlegra stofnana í Evrópu, sem fari í bága við íslensku stjórnarskrána.

Ríkisstjórnin ætlar sér að leggja þetta mál fram með þeim hætti, með svokölluðum lagalegum fyrirvara. Það er orðað þannig að þess vegna sé stjórnarskrárvandanum, sem menn hafa verið að lýsa, sem í þessu regluverkið sé falinn, frestað í bili, eins og það er orðað.

Hefur hv. þingmaður skoðun á því hvort það sé nægilegt og hvort þessi frestun sé tæk? Er hægt að fresta honum? Vegna þess að ef ríkisstjórnin innleiðir eitthvað sem hún telur vera í andstöðu við stjórnarskrána, hvernig í ósköpunum er þá hægt að fresta því? Hvernig er hægt að fresta því sem maður er búinn að innleiða?