149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:49]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Það sem mig langar aðeins að koma inn á í þessu sambandi er það sem ég leyfi mér að kalla feluleikinn með sæstrenginn. Það liggur fyrir og er þekkt að unnið hefur verið um árabil að undirbúningi að sæstreng milli Íslands og Bretlands og við orkumarkað ESB. Við þekkjum IceLink-verkefnið. Talsmenn Landsvirkjunar hafa auk þess komið því á framfæri að þeir telji sterkar líkur á slíkri tengingu innan fárra ára. Auk þess hefur einkafyrirtækið HS Orka unnið að því. Þannig að að þessu verkefni hefur verið unnið um árabil.

Þá er rétt að velta því aðeins fyrir sér hvort ástæðan fyrir því að þetta er keyrt í gegn og menn treysta sér ekki til að fara í undanþágu frá þessu verkefni, orkupakka þrjú, sé einfaldlega sú að þar gætum við sett stein í götu þess að hér verði lagður sæstrengur.

Mig langar að heyra hjá hv. þingmanni hvort hann sé ekki sammála mér, að það megi í raun og veru kalla þetta feluleik með þennan sæstreng. Vegna þess að búið er að vinna að honum svo lengi og það mun setja það verkefni í uppnám að fara að stöðva þetta ferli með orkupakka þrjú eða fá varanlega undanþágu. Og að sjálfsögðu liggja miklar fjárfestingar (Forseti hringir.) að baki svona stóru og viðamiklu verkefni.