149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:54]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta tengist náttúrlega mjög, lagalegi fyrirvarinn og sæstrengurinn, vegna þess að hann á að ganga út á það að ekki verði lagður sæstrengur nema með leyfi íslenskra stjórnvalda. Síðan er spurning hvort það verði ekki þannig fljótlega eftir að þessi lagalegi fyrirvari verður settur og ákvæðið sett í raforkulög, bara innan fárra ára þegar þrýstingurinn verður enn meiri á að hefja sæstrengsverkefnið eða lagningu sæstrengs, að þessi lög verði afnumin.

Er það ekki bara það sem við sjáum fram á, hv. þingmaður, að settur er einhver fyrirvari hér til þess að þetta líti vel út gagnvart baklandi stjórnmálaflokkanna, eins og Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sérstaklega? Svo þegar allt er klárt og allir tilbúnir að fara í verkefnið verði þetta afnumið eins og hver önnur lög sem eru afnumin? Tiltölulega einfalt ferli.

Er það ekki bara niðurstaðan, hv. þingmaður, að þetta sé í raun og veru það sem liggur að baki þessum fyrirvörum, að þeir setji þá bara til þess að friðþægja, til heimabrúks? Og síðan kemur að því að það þarf að afnema þá. Þá verður það bara gert einn, tveir og þrír, eins og sagt er.

En svo er það hins vegar allt annað mál að svona fyrirvarar halda ekkert ef á það reynir af hálfu Evrópusambandsins. Það er náttúrlega stóra málið. Við vitum að Evrópusambandinu er meinilla við allt sem heita undanþágur og fyrirvarar. Þannig að ég held að við sjáum bara fram á það, hv. þingmaður, (Forseti hringir.) að þetta muni allt saman renna í gegn.