149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:39]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Hv. þm. Birgir Þórarinsson hefur verið meðal þeirra sem mest og best hafa fjallað um áhrif á orkuverð af þátttöku okkar í evrópska orkusamstarfinu. Hann hefur fjallað um það hvernig hann sá með eigin augum og fann á eigin skinni, ásamt með sínum sveitungum suður með sjó, hvernig raforkuverðið hækkaði í framhaldi af innleiðingu fyrri pakka.

Við höfum staðið frammi fyrir því að hv. þingmenn úr stjórnarliðinu hafa ritað blaðagreinar með fullyrðingum um að með innleiðingu á þriðja orkupakkanum muni orkuverð lækka. Það gengur gegn þeirri reynslu sem hv. þingmaður hefur vísað til og sömuleiðis gengur það gegn þeim ályktunum sem eðlilega má draga af markmiðum í Evrópusamstarfinu um samræmingu og einsleitni. Við erum hérna með tiltölulega lægra orkuverð en gerist og gengur í Evrópu.

Áþekkar áhyggjur eru mjög áberandi í Noregi og ég er hérna með nýlega norska skýrslu sem fjallar um einmitt þetta, orkuverð. Þar er nákvæmlega rætt um það að afleiðingin af áframhaldandi samhæfingu orkumála í Evrópu verði samhæft orkuverð, sem verði hærra en menn hafa átt að venjast hingað til í Noregi. Þetta er ein af meginniðurstöðum þessarar skýrslu sem gerð var af norskri hugveitu. Ég vildi gjarnan inna hv. þingmann eftir áliti á þessum upplýsingum.