149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:54]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég held að það sé virkilega mikilvægt að fara yfir þessa tillögu, sem var kannski ekki borin upp formlega en nefnd hér úr ræðustól, um að fresta málinu fram á haustið. Við verðum að hlusta á áhyggjur verkalýðshreyfingarinnar. Hvaða afleiðingar gæti það haft á nýgerðan lífskjarasamning ef þetta mál yrði keyrt í gegn og síðan sæju menn fram á hækkanir á raforkuverði í framhaldi af því til heimila og fyrirtækja í landinu?

Um leið og þessi innleiðing er komin í gegn verður einhver hækkun á raforku til heimila og fyrirtækja í landinu vegna þess að hækka á eftirlitsgjaldið á raforkufyrirtækin um 45%. Þessi sömu fyrirtæki greina frá því, í umsögn við tillöguna, að þær hækkanir muni fara út í verðlagið. Það liggur bara fyrir. En við vitum hins vegar ekkert hversu há þessi upphæð verður, hún hefur ekki verið reiknuð út mér vitanlega. Það hefði verið eðlilegt að það lægi fyrir. Það væri sjálfsagður og eðlilegur undirbúningur í þessu máli. Almenningur er heldur ekki almennt nógu upplýstur um þetta mál og það er líka alvarlegt vegna þess að málið er stórt og mikið og varðar málefni sem skipta okkur öll miklu máli, raforkuverð sem er það lægsta í Evrópu. Það eru lífsgæði (Forseti hringir.) sem við viljum halda í, mikilvæg búsetuskilyrði víða.

Ég tel eðlilegt að það verði skoðað alvarlega að fresta þessu máli fram á haust.