149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:51]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir það sem hér kom fram og spurninguna, þó að það sé venjulega þannig að þeir sem fara í andsvör spyrji þá sem halda ræðurnar. En það er sjálfsagt að nýta tækifærið. Ég er ánægður að heyra sjónarmið hv. þingmanns um að hann vilji að við fáum að velja okkur raforkusala. Ég er mjög ánægður að heyra það. Þar erum við hv. þingmaður sammála.

Ég held að spurningin ætti í rauninni að vera sú af hverju samkeppnin er ekki meiri en raun ber vitni. Hún er til staðar og verð hefur lækkað samkvæmt úttektum frá tveimur aðilum. Raforkusöluþátturinn hefur lækkað en af því að við höfum farið í framkvæmdir á burðarmannvirkjum og öðru slíku hefur flutningsþátturinn hækkað. Ég held að það sé besta leiðin, að við fáum að velja. Það er mín einlæga skoðun.

Hv. þingmaður spyr um neytendavarnirnar, en þetta aukasjálfstæði er raforkueftirlit Orkustofnunar. Það er það sem það gengur út á. Viðkomandi raforkueftirlit fær meiri heimildir en það hefur núna til að ýta á eftir og hafa eftirlit með þessum þáttum. Við höfum trú á því, alla vega á öðrum sviðum, að það hafi aukið neytendavernd. Ég held hins vegar að hv. þingmaður hafi alveg komið að kjarna málsins, að við ættum kannski að ræða þessi mál meira. Það er margt í þessari umræðu sem mér hefur fundist kalla á að við ræðum meira þó að það tengist ekki beinlínis orkupakkanum í mörgum tilfellum. Í þessu finnst mér spurningin eiga að vera: Hvernig getum við ýtt undir frekari samkeppni hvað þetta varðar? Það er markmið í sjálfu sér að samkeppnin sé eins virk og mögulegt er. Og jafnvel þótt ýmsir segi að við séum svo fámennt þjóðfélag að það verði aldrei algerlega virk samkeppni þurfa þjóðfélögin ekki að vera lítil til að það vanti upp á að samkeppnin virki.