149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:07]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Að öllu tali um Norðmenn slepptu tölum við Miðflokksmenn fyrir íslenskum hagsmunum fyrst og fremst og teljum okkur vera að verja íslenska hagsmuni eins og hefur komið fram í mörgum ræðum okkar undanfarna daga.

Varðandi þennan lagalega fyrirvara hef ég rætt þetta mál á þeim grunni að þegar Alþingi Íslendinga samþykkir þessa þingsályktunartillögu og lofar að innleiða þar með þriðju orkutilskipun Evrópusambandsins erum við skyldugir til þess að breyta lögum til samræmis svo ekki fari í bága við reglugerðir og tilskipanir Evrópusambandsins sem eru á bak við þessa orkutilskipun.

Rétt í lokin ætla ég að nefna að það er einkennilegt, herra forseti, miðað við allan þann ágæta skilning sem ráðamenn í Evrópu og ráðamenn í EFTA-ríkjunum hafa sýnt sérstöðu Íslands og sem hefur margoft verið nefndur í ræðustól Alþingis af hálfu stjórnarliða, ef þessi skilningur er svona mikill, af hverju menn leita ekki eftir þeirri einu undanþágu sem dugir í þessu máli sem er að fara fyrir sameiginlegu EES-nefndina og leita þar undanþágna á ákvæðum sem ganga í berhögg eða ætla má að gangi í berhögg við íslensku stjórnarskrána.