149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:28]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég hef sömu tilfinningu og hv. þingmaður. Í gegnum þá umræðu sem hér hefur farið fram undanfarin dægur hefur jú komið ítrekað fram að við höfum áhyggjur af þeim fyrirvörum sem settir voru, að þeir standist ekki, jafnvel ekki lög, og einnig hvernig þeim er komið fyrir. Að koma fyrir fyrirvara t.d. í reglugerð er mjög, held ég að maður geti sagt, ámælisvert eða jafnvel háskalegt.

Evrópusambandið seilist eins langt og hægt er í hverju máli. Þetta er ekki skátaklúbbur. Þetta eru harðsvíruð hagsmunasamtök og náttúrlega af þeirri stærð að við erum bara eins og maur hangandi utan á fíl í þeim samanburði. Þeim mun brýnna er fyrir okkur að tryggja að allir endar þessa máls sem við erum að fjalla um séu með þeim hætti að þeir haldi.

Og þá er spurningin: Hvað telur hv. þingmaður að hægt sé að gera til að lágmarka óvissu af þessum sökum? Telur hv. þingmaður að til þess að hægt sé að vinna þetta mál betur sé nauðsynlegt að við frestum afgreiðslu þess, til að hægt sé að vinna á einmitt þeim álitamálum sem sannarlega vöknuðu við heimsókn utanríkisráðherra hingað á okkar fund?