149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:16]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta er mikið furðuefni. En ég ítreka spurninguna varðandi frestun vandans: Getur hv. þingmaður ekki tekið undir með mér að jafnvel þó að mönnum tækist að búa til þann fyrirvara að við gætum frestað því að takast á við spurninguna um — eða réttara sagt: Jafnvel þótt hægt væri að búa til fyrirvara sem tryggði að stjórnarskrárbrot ætti sér ekki stað núna, vegna þess að ekki væri verið að innleiða núna, þá engu að síður sé þetta tíminn til að svara spurningunni um hvort innleiðingin, þegar hún mun eiga sér stað, muni stangast á við stjórnarskrá.

Er ekki hv. þingmaður sammála mér um að það er ákaflega sérkennilegt að ætla að ráðast í innleiðingu regluverks Evrópusambandsins í þeirri von að það muni standast stjórnarskrá? Klára ekki innleiðinguna heldur boða að það kunni að gerast síðar við ákveðnar aðstæður, þá væntanlega við sæstrengstengingu, en ætla að bíða með að skoða hvort málið standist stjórnarskrá þangað til þar að kemur? Fara af stað í vegferð sem menn vita ekki hvort, þegar hún er gengin alla leið, muni stangast á við stjórnarskrá eða ekki?

Það má líkja þessu við, eins og ég gerði reyndar af öðru tilefni í umræðum í gær, að fara upp í járnbrautarlest og ætla að velta fyrir sér á leiðinni hvort lestin sé að fara á réttan stað og hugsa sem svo: Ja, ef hún er ekki að fara á réttan stað, (Forseti hringir.) þá stekk ég bara úr henni á ferð.