149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:59]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég ætlaði að bregðast við orðum hæstv. utanríkisráðherra þegar ég spurði hann um lagalega fyrirvarann. Ég bíð eftir útprentun á ræðu hæstv. ráðherra um þetta en svarið var þess efnis að hann vísaði í nefndarálit meiri hluta utanríkismálanefndar, að því er mér heyrðist, þannig að ég ætla að byggja mál mitt svolítið á því í þessari ræðu.

Forsendur fyrir innleiðingu þriðju orkutilskipunar Evrópusambandsins, eins og kynnt var hér að hún yrði innleidd, voru þær að hnýtt var við „með lagalegum fyrirvara um tengingu landsins við raforkukerfi Evrópu“. Þannig var þetta einhvern veginn orðað efnislega, að tilskipunin yrði innleidd en með lagalegum fyrirvara. Þá hófst þessi leit að honum, hvar hann væri að finna, eins og ég hef lýst hér í fyrri ræðum, einum tveimur.

Fólk hefur aðeins verið að spyrja mig um það hvað lagalegur fyrirvari sé og það ruglar þessu iðulega saman við stjórnskipulegan fyrirvara sem við höfum líka rætt um hér. Það er allt annar hlutur. Stjórnskipulegi fyrirvarinn liggur í því að íslenska ríkið, fyrir sameiginlegu EES-nefndinni, gerir stjórnskipulegan fyrirvara ef því sýnist að breyta þurfi löggjöf hér innan lands við innleiðingu á tilskipunum eða reglugerðum Evrópusambandsins. En það er allt annað. Við erum að tala um það sem ríkisstjórnin kynnti þegar þetta mál var lagt fram, að þetta yrði innleitt en með lagalegum fyrirvara.

Þegar þetta var kynnt á þennan hátt féllu allar varnir niður innan stjórnarliðsins. Þá allt í einu féllu allar varnir niður og stjórnarþingmenn, þeir sem hafa látið í ljós afstöðu sína, féllu frá því að vera á móti málinu og hugðust þá styðja það. Ég geri ráð fyrir því, án þess að ég hafi hugmynd um það, að þeir hafi sumir hverjir gert það vegna þess að það væri svo afbragðsgóð hugmynd að gera þetta með lagalegum fyrirvara, sem það gat hugsanlega verið.

Síðan þegar spurt er um þetta 15. maí upp úr klukkan fjögur, af hv. þm. Ólafi Ísleifssyni, verður mikið fát á stjórnarliðum og þau svara en svörin eru mjög misvísandi. Ég hef verið að reyna að kortleggja þau og reyna að finna út hvar þennan fyrirvara væri að finna, þennan lagalega fyrirvara. Það fyrsta sem mér datt í hug var að leita í löggjöfinni sem fyrirhuguð er, en þar var bara hluti af þeim tilgátum sem komu. Þetta var kallað skollaleikur hér lengi framan af því að þetta voru auðvitað hreinar ágiskanir vegna þess að mönnum bar alls ekkert saman, stjórnarliðinu.

Hæstv. utanríkisráðherra kom hér fyrr í dag og upplýsti að fyrirvarann væri að finna í nefndaráliti, líklega nefndaráliti hv. utanríkismálanefndar, meirihlutaáliti þeirrar nefndar. Ég fór í það álit og með leyfi forseta ætla ég lesa texta á bls. 4:

„Í ljósi þessa og til þess að taka af allan vafa er í þingsályktunartillögunni vísað til þess að reglugerð (EB) nr. 713/2009, sem kemur á fót ACER, verði innleidd með lagalegum fyrirvara …“ — Þarna kom þetta orðalag. — „… [sem] snýr að því að grunnvirki sem gera mögulegt að flytja raforku milli Íslands og orkumarkaðar Evrópusambandsins verði ekki reist eða áætluð nema að undangenginni endurskoðun á lagagrundvelli reglugerðarinnar.“

Hvað þýðir þetta? Ætla þeir að endurskoða reglugerð 713? Hver ætlar að gera það? Ríkisstjórnin? Ætla þeir að fara fram á að hún verði endurskoðuð úti í Evrópu? Þetta er ómögulegt að skilja. Ég ætla að halda áfram í næstu ræðu minni — og þeir brosa stjórnarliðar, þeir brosa.