149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:09]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Tveir úr okkar hópi hafa lagt sig mjög eftir lagatexta og -tengingum í þessu máli og flutt þvílíkar öndvegisræður að ég trúi eiginlega ekki öðru en að þetta smitist nú aðeins inn hjá þeim sem hlýða á og þeir verði miklu nær en áður um hvernig þetta mál er vaxið, hversu vanbúið það er og hversu nauðsynlegt er að því verði frestað, það tekið aðeins til hliðar og farið betur yfir það til þess að vanda málsmeðferðina.

Ég hjó eftir því eins og fyrr, að hv. þm. Karl Gauti Hjaltason er í fyrsta lagi á hnotskóg eftir týndu fyrirvörunum og gengur lítið að finna þá. En síðan er það sem ég hef viljað kalla losarabrag eða lausatök í þessu máli. Í fyrsta lagi að þetta mál skuli vera borið upp sem þingsályktunartillaga sem fer í tvær umræður og síðan ekki söguna meir og verður síðan sent ríkisstjórninni. Í öðru lagi að bæði eru fyrirvararnir sem ekki finnast og fleira, það losaralega gert og losaralega um búið að maður er hálfhræddur við að verði þetta samþykkt núna eins og það liggur fyrir, muni vera hægt að reisa málaferli vegna málsmeðferðarinnar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji raunverulega hættu á að við getum lent í málaferlum út af því að þetta sé ekki rétt inn fært eða rétt innleitt og hvort við séum þá ekki í hættu vegna þess að það eru svo veikar sérstakt lagastoðir sem að þessu standa.