149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:16]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir ágætar vangaveltur.

Já, ég held að það sé gott ráð að bíða niðurstöðu hvað varðar gildi orkutilskipunarinnar í Noregi. Ég held að það sé þjóðráð, herra forseti.

Varðandi för okkar á þær óvissuslóðir sem við erum að feta okkur inn á með því að innleiða þetta með þessum hætti: Ef maður innleiðir þetta regluverk verður ekki til baka snúið. Maður getur ekki bara sagt: Allt í plati, seinna meir. Því að innleiðingin er orðin. Og um leið og einhver atvik eða tilvik koma upp í framtíðinni, hvernig svo sem þau ber að — og hvers eðlis þau eru veit ég ekki — þá gildir þetta hér; alveg sama hvort menn hafa velt fyrir sér einhverjum pólitískum yfirlýsingum manna eða reglugerðum, útgefnum hér á Íslandi, þá gildir efnislega orkutilskipunin hér á landi.

Ég vil benda hv. þingmanni á að það eru fjöldamargir lögfræðingar sem sitja hér á Alþingi sem eru í stakk búnir til að skoða þetta gaumgæfilega. Ekki eru færri lögfræðingar innan stjórnarliðsins. En menn fá misjöfn spil á hendur. Menn spila auðvitað úr þeim spilum sem þeim eru gefin.