149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:20]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Þorvaldssyni kærlega fyrir spurningarnar. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins, nr. 713/2009, fjallar aðallega um samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði í Evrópu og á Evrópska efnahagssvæðinu eftir innleiðingu þessarar tilskipunar á Evrópska efnahagssvæðinu. Í þeirri reglugerð er að finna nokkur ákvæði, sérstaklega 8. gr., en líka 7. og 9. gr., sem lögfræðilegir álitsgjafar ríkisstjórnarinnar hafa talið mikinn vafa leika á hvort framselji vald til alþjóðlegrar stofnunar og brjóti þar með gegn stjórnarskránni.

Þessi leið er farin, að þetta sé innleitt alveg óbreytt, ég tek það fram, jafnvel þótt verulegur vafi leiki á og veruleg hætta sé á því að þarna sé verið að brjóta gegn ákvæðum íslensku stjórnarskrárinnar. Þetta er innleitt með lagalegum fyrirvara. Þess vegna er svo mikilvægt, herra forseti, að það sé leitt í ljós hver sá lagalegi fyrirvari er.

Síðan þegar búið er að upplýsa hvers lags gildi þeir hafa — þessarar spurningar höfum við margoft spurt, og sérstaklega: Hvert er þjóðréttarlegt gildi þessa lagalegu fyrirvara? Það er grundvallaratriði.