149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:46]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ástæða þess að ég spurði þessarar spurningar er sú að samkvæmt aðfaraorðum reglugerðarinnar, þ.e. reglugerðar nr. 713/2009, er stofnuninni komið á fót til að fylla í gloppur á löggjöfinni, eins og ég sagði í fyrra andsvari mínum, með leyfi forseta „á vettvangi ESB og stuðla að skilvirkri starfsemi innri markaða fyrir raforku og jarðgas.“ Þ.e. innri markaða Evrópusambandsins.

Við tökum eftir því að ég er að lesa upp úr þingsályktunartillögu meiri hluta utanríkismálanefndar.

„Einnig skal stofnunin gera landsbundnum eftirlitsyfirvöldum kleift að auka samvinnu sína á vettvangi ESB“ — ekki EES, á vettvangi ESB — „og taka gagnkvæman þátt í ESB-tengdri starfsemi.“

En við skulum veita því athygli að þegar þarna er komið sögu, eftir þessa innleiðingu, hvað er þá búið að gerast? Þá verður búið að taka Orkustofnun undan framkvæmdarvaldi íslenska ríkisins, gera hana sjálfstæða svo hún lýtur hvorki pólitísku né lagalegu boðvaldi og er orðin sjálfstæð. Hún er fjármögnuð af íslenska ríkinu en heyrir ekki undir það og hefur heimildir til að knýja fram ákvæði reglugerðanna og innleiðingarinnar og markmiða Evrópusambandsins um sameiginlegan og samþættan markað.

Þetta er það ákvæði sem vísar raunverulega til þess að þarna sé of opin heimild til þess að hún geti talist tæk.