149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:56]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Í fyrsta lagi get ég upplýst hv. þingmann um að þeir sem spurðir voru sambærilegrar spurningar fyrir utanríkismálanefnd sögðust ekki þekkja nein dæmi þess að settur hefði verið einhliða fyrirvari með þeim hætti sem hér er lagt upp með, enda kemur það skýrt fram í EES-samningnum hvernig menn fari að því að fá undanþágur, eða með öðrum orðum fyrirvara sem halda.

Það er rétt sem hv. þingmaður segir, menn hafa reynt eitt og annað í þessum efnum. En þá hefur því verið snúið til baka. Menn hafa túlkað það sem svo, og eðlilega, af orðanna hljóðan í samningnum, að þegar þeir innleiði þá innleiði þeir að fullu.

Það sem hv. þingmaður fór yfir í ræðu fyrr í kvöld undirstrikar þetta á alveg einstaklega skýran hátt. Það sem bætist við er þátturinn er varðar dagsetninguna og hvaða útgáfa tekur raunverulega gildi.

Engu að síður hafa menn með þessum svokölluðu fyrirvörum þriðja orkupakkans, og í Noregi með annars konar fyrirvörum, haldið áfram að reyna. Þá er ekki nema von að hv. þingmaður velti fyrir sér hvers vegna.

En í ljósi reynslunnar sér maður enga aðra ástæðu fyrir því, enga haldbæra skýringu á því, en þá að það sé gert til að koma málinu í gegnum hvort þjóðþingið um sig og svo þingmönnum kannski líði aðeins betur með að greiða atkvæði með því. En þeir viti það þó að haldið verði ekkert og rísi ágreiningur sé það full innleiðing sem gildi.