149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:00]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Já, ég skal fallast á túlkun hv. þingmanns, enda get ég ekki annað. Hann vísar einfaldlega í reglurnar og dregur ályktanir út frá þeim. En það er hins vegar undarlegt að þeir hv. þingmenn sem tala fyrir þessu máli skuli ekki fallast á þessa túlkun hv. þingmanns, eða geri þeir það í raun treysta þeir sér a.m.k. ekki til að segja frá því.

En varðandi spurninguna um fiskveiðar, sjávarútveg og EES-samninginn, er það mál sem tekið var fyrir við samningsgerðina. En hægt er að líta til mjög nærtæks dæmis til að svara spurningu hv. þingmanns. Nærtæks, segi ég, vegna þess að það varðar orkumál. Það varðar meira að segja þennan þriðja orkupakka og snýr að jarðgasi.

Ísland fékk nefnilega undanþágu varðandi jarðgas frá þessum orkupakka, enda ekki gasleiðslur frá Íslandi til Evrópu og Ísland ekki að flytja út gas. Þá blasir auðvitað við hver lausnin væri með rafmagnið. Það er ekki sæstrengur, við flytjum ekki út rafmagn. Því skyldum við þá ekki fá undanþágur frá því á sama hátt og með gasið? Nema menn hugsi sér að þar verði breyting á og Ísland verði tengt og geti byrjað að flytja út hreina, endurnýjanlega orku og selja til Evrópusambandsins, sem lið í því risamarkmiði þess að komast í meiri orku, og sérstaklega endurnýjanlega orku.