149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:02]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M):

Herra forseti. Nú langar mig aðeins til að víkja að þessum fyrirvörum og hvernig þeir virðast vera innleiddir miðað við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og þá grein sem ég vísaði til hér áðan, sem er 7. gr., og reyndar eru fleiri greinar sem lúta að því. En síðan kem ég að sameiginlegu ákvörðun EES-nefndarinnar sem við höfum til umfjöllunar hér, hún er raunverulega forsendan fyrir því að leggja fram téða þingsályktunartillögu. Síðan er ég með, í dæmaskyni, reglugerð nr. 714/2009 prentaða út á íslensku. Í niðurlagi sameiginlegu ákvörðunar EES-nefndarinnar er talað um að íslenskur og norskur texti reglugerða, eins og hann birtist hér og er fylgiskjal þingsályktunartillögunnar, teljist fullgildur.

Í meðförum málsins fyrir sameiginlegu EES-nefndinni er raunverulega verið að taka Evrópulöggjöf, þriðja orkupakkann, frá Evrópusambandinu, og innleiða inn í samstarfið um Evrópska efnahagssvæðið. Það þarf svo sem engan að undra að sameiginlega EES-nefndin segist taka ákvörðun „með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið („EES-samningurinn“) einkum 98. gr.“ — Ég ætla að tengja við þá grein, með leyfi forseta:

„Breyta má viðaukum samningsins, svo og bókunum 1–7, 9–11, 19–27, 30–32, 37, 39, 41 og 47, eftir því sem við á, með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar í samræmi við 93. (2. mgr.), 99., 100., 102. og 103. gr.“

Síðan kemur:

„Fella ber inn í EES-samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 713/2009 frá 13. júlí 2009 um að koma á fót Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði.“ — Það er ACER, það þarf að fella það inn í samninginn. Það er gert með þessum reglugerðum.

Síðan þar sem orðalag breytist og farið er að tala um EFTA-ríkin og EES-svæðið er sérstaklega tilgreint hvað þurfi að breytast í þessari Evrópulöggjöf. Það er gert í skjalinu sem er sameiginleg ákvörðun EES-nefndarinnar. Þegar búið er að vinna þessa sameiginlegu ákvörðun EES-nefndarinnar lítur hið fullbúna skjal svona út [Þingmaður veifar blaði.] — reglugerð.

Hér horfum við á það hvernig ferlið er. Í dæmaskyni: Ef þetta yrði svo sett inn sem viðauki, að við myndum t.d. gera fyrirvara við að afhenda yfirráð yfir nýtingu eða vinnslu úr orkuauðlindum, hvernig sem það yrði gert, kæmi það inn í viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið á sama hátt og það gerir er varðar Íslendinga þar sem við gerðum fyrirvara í upphafi um sjávarútveginn og fiskveiðiauðlindina okkar. Þar er að finna, í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, fylgiskjal 4, g-lið, 1. tölulið 12. viðauka.

„Þrátt fyrir 40. gr. samningsins og ákvæði þessa viðauka er Íslandi heimilt að beita áfram þeim höftum sem eru í gildi við undirritun samningsins um eignarrétt erlendra aðila og/eða eignarrétt aðila sem ekki eru búsettir á Íslandi á sviði fiskveiða og fiskvinnslu.

Þessi höft skulu ekki koma í veg fyrir fjárfestingar erlendra aðila eða ríkisborgara sem eru ekki með lögheimili á Íslandi í félögum sem taka aðeins á óbeinan hátt þátt í fiskveiðum eða fiskvinnslu. Þó hafa innlend yfirvöld rétt til að skuldbinda fyrirtæki sem hafa að hluta eða að öllu leyti verið keypt af erlendum aðilum eða ríkisborgurum sem ekki eru með lögheimili á Íslandi til að losa (Forseti hringir.) sig við fjárfestingar í starfsemi á sviði fiskvinnslu eða í fiskiskipum.“

Þarna er nú heldur betur hert að hinu frjálsa flæði. En svona lítur þetta út eftir að búið er að innleiða það.