149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:15]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni kærlega fyrir svarið. Við ræddum það fyrr í kvöld hvort ekki hefði verið rétt að kynna fyrir almenningi orkupakka þrjú á mannamáli, og það tengist beint ræðu hv. þingmanns, kynna fyrir fólki hvað fælist í orkupakka þrjú. Ég hélt því fram í andsvari fyrr í kvöld að það hefði raunverulega verið kynnt á mjög einfaldan hátt af þeim flokkum sem buðu sig fram í kosningum, að í orkupakka þrjú fælist valdframsal og þessi óseðjandi þörf Evrópusambandsins til að seilast ávallt lengra og lengra inn á valdsvið fullvalda ríkja og að ná með salamíaðferðinni yfirráðum og ítökum í orkuauðlindum og ráðstöfun þeirra. Fólk kaus og lýðræðið réð, eins og ég fór inn á.

Væri nú ekki ráð að menn töluðu hreint út um það, og þá stjórnmálaflokkarnir sem slíkir, hvað felst þá í orkupakka fjögur og jafnvel nr. fimm, sem er í smíðum? Þannig að fólk sé alveg upplýst um hvort þeir stjórnmálaflokkar sem sitja á Alþingi í dag ætli að halda áfram að gangast undir boðvald Evrópusambandsins og standa í lappirnar eins og þeir hafa viljað skreyta sig með á tyllidögum, eða hvort þeir ætli þegar á reynir að standa í lappirnar með því sem þeir hafa gefið út í stefnu sinni og því sem stefnur flokkanna hafa gefið til kynna á árum og áratugum?