149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:26]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vona að forseti taki því ekki illa en ég stenst ekki mátið fyrst hv. þingmaður gerði þennan samanburð við greiðsluskjólið svokallaða í Icesave-deilunni, að nefna að það er eitt og annað, og reyndar býsna margt, sem er líkt með þessum málum. Nú er kannski ekki rétt að spyrja spurninga af því að hv. þingmaður getur ekki komið aftur upp í beinu framhaldi, en kannski getur hann svarað því í ræðu síðar.

Man hv. þingmaður t.d. eftir því sem ég held að kallað hafi verið „Memorandum of Understanding“, sem átti að vera einhvers konar sameiginlegur skilningur ráðamanna í Bretlandi og Hollandi, á Íslandi, kannski víðar, á því að þetta yrði allt í lagi? Óneitanlega dálítið líkt sameiginlegum skilningi hæstv. utanríkisráðherra og orkumálastjóra Evrópusambandsins, gott ef það var ekki bara kallað memorandum of understanding líka.

Og svo voru það fyrirvararnir. Man hv. þingmaður eftir því þegar Alþingi ákvað að gera einhliða fyrirvara við Icesave-samninginn um leið og það samþykkti hann? Mér þótti reyndar mjög gott að Alþingi skyldi setja þessa fyrirvara, því að maður vissi sem var að ekkert mark yrði tekið á þeim, menn myndu ekki sætta sig við þá. Því miður á það sama við um fyrirvarana í þessu orkupakkamáli. Þeir skipta engu máli. Og raunar er hv. þm. Jón Þór Þorvaldsson búinn að útskýra það í sinni einföldustu mynd, þó að hann hafi þurft að leita í frumgögn og dagsetningar og annað máli sínu til staðfestingar. Hann útskýrir einfaldlega að verði þriðji orkupakkinn samþykktur gildi orkupakkinn eins og hann leit út árið 2017 í sameiginlegu EES-nefndinni (Forseti hringir.) löngu áður en hæstv. utanríkisráðherra eða einhverjum öðrum datt í hug að búa (Forseti hringir.) til hina lofsverðu fyrirvara.