149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:43]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Nú spyr ég af því að ég veit ekki, ég kem hingað inn sem varaþingmaður, um vinnu- og hvíldartíma opinberra starfsmanna. Ég sé að á vef Stjórnarráðs Íslands er talað um hvíldartíma. Nú er klukkan að slá á óttu á öðrum sólarhring í maraþonvinnu þingmanna þar sem þingmenn hafa ekki fengið hvíld, hafa setið þingfundi og farið beint á nefndarfundi, í kjölfarið á þingfund og framhald á honum. Á vef Stjórnarráðsins segir að í vinnutímakafla kjarasamninga sé einnig kveðið á um hvíldartíma, þ.e. 11 stunda daglega samfellda lágmarkshvíld og vikulegan hvíldardag sem tengist beint daglegum hvíldartíma. Jafnframt er kveðið á um undantekningar frá þessum lágmarksreglum, t.d. er heimilt að stytta samfellda lágmarkshvíld í allt að átta stundir þegar um skipuleg vaktaskipti er að ræða. Kveðið er á um svokallaðan frítökurétt (Forseti hringir.) sem er venjulega 1,5 stundir fyrir hverja stund sem hvíldin skerðist. Frítökuréttur skapast þegar starfsmaður er sérstaklega beðinn (Forseti hringir.) um að mæta aftur til vinnu áður en 11 stunda lágmarkshvíld er náð. Ég gæti haldið áfram að lesa en mig langar til að fara þess á leit við hæstv. forseta að hann bregðist við því sem forstöðumaður ríkisstofnunar hversu lengi hann ætlar að halda áfram fundi og hvort hann hafi kynnt sér reglur um hvíldartíma alþingismanna.