149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:45]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég kem hér upp til að taka undir þau sjónarmið sem hv. þm. Jón Þór Þorvaldsson setti fram rétt áðan, en vil setja þau í það samhengi að þetta er auðvitað óboðlegt gagnvart starfsmönnum Alþingis. Ég vorkenni okkur þingmönnunum nú minna en starfsmönnunum því að við veljum að vera hérna og ég vil minna á í þessu samhengi að það er auðvitað forseti Alþingis sem stýrir dagskránni, það er forseti sem stýrir fundarhöldum. Aukafundir, t.d. fimmtudags og föstudags, voru heimild til að halda aukafund samkvæmt ákvörðun forsætisnefndar. Það var ekki skilyrði. Það er ákvörðun forseta að halda þessa fundi og ég sé ekki ástæðu til þess að almennir starfsmenn Alþingis séu settir í þá stöðu að þurfa að vera hér daga og nætur til þess, að því er virðist, að forseti fái úr því skorið hvort hann geti með einhverjum hætti þreytt þingmenn Miðflokksins til uppgjafar.

Ég held að starfsmenn þingsins sem hafa unnið frábært starf hér síðustu daga, eins og iðulega, eigi betra skilið en þetta.