149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:20]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil staldra aðeins við það þegar hæstv. ráðherra utanríkismála kom til okkar í dag. Við höfðum margítrekað við forseta að við hefðum spurningar sem við vildum að yrði svarað af hans hálfu, en því miður urðum við fyrir miklum vonbrigðum með svör ráðherra. Hann svaraði jafnvel með skætingi, gerði lítið úr hv. þingmönnum, sumum hverjum, sakaði hv. þm. Ólaf Ísleifsson um að hafa ekki lesið þessar álitsgerðir sem liggja að baki nægilega vel, og er það ekki í fyrsta sinn sem hann gengur fram með þeim hætti, sem er algerlega óboðlegt, herra forseti. Í raun og veru vil ég líta svo á að þegar ráðherra kemur fram með þessum hætti þá sé hann ráðþrota. Þetta minnir mann á, eins og ég sagði hér fyrr í kvöld, einhverjar málfundaæfingar sem hæstv. ráðherra hefur eflaust verið í, t.d. í Valhöll. En alla vega lagði ég hér fyrir hæstv. ráðherra spurningar sem eru vel ígrundaðar og mjög réttmætar, en það var fátt um svör.

Ég hjó sérstaklega eftir því hvernig hann byrjaði ræðu sína á því að vega að þeim ágætu samtökum í Noregi sem heita Nei til EU og norska Miðflokknum. Hæstv. ráðherra vó að mínu mati að þessum samtökum hér úr ræðustóli Alþingis án þess að þeir aðilar gætu nokkuð varið sig. Mér finnst það ómaklegt, herra forseti. Þessir aðilar hafa ekki haft nein samskipti við Orkuna okkar eins og hæstv. ráðherra vildi láta í veðri vaka. Þetta er alvarlegur áburður hjá utanríkisráðherra og ekki til þess fallinn að bæta samskipti Íslands og Noregs. Ég held að það sé nokkuð ljóst, herra forseti, og svolítið einkennileg innkoma hjá hæstv. ráðherra hvað þetta varðar.

Ég hjó líka eftir því sem mér þótti mjög athyglisvert þegar hæstv. ráðherra fór að réttlæta þriðja orkupakkann, innleiðingar hans vegna samtals fyrrverandi forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, og forsætisráðherra Bretlands, Davids Camerons. Sá málflutningur var með ólíkindum og í anda þess sem kom fram hér hjá hæstv. ráðherra. Hæstv. ráðherra eyddi drjúgum tíma í sinni viðveru hér í að lesa upp úr álitsgerðinni, sem sýnir að hann hafði engan áhuga á því að svara þeim fyrirspurnum sem voru lagðar fyrir hann, sem er með ólíkindum og á ekki að líðast að framkvæmdarvaldið komi fram með þeim hætti gagnvart Alþingi.

Ég spurði síðan hæstv. ráðherra út í yfirlýsingarnar sem ég hef nefnt hér, bæði EFTA og Evrópusambandsins, um sameiginlegan skilning á stöðu Íslands og fyrirvörum, hvort þeir verði þá hugsanlega bindandi fyrir þessi stjórnvöld. Því hvað gerist þá með aðra lögaðila sem eiga aðild að samningnum? Þeir hafa ekki gefið (Forseti hringir.) neinar yfirlýsingar í þessum efnum.

Ég náði ekki að klára þetta, herra forseti, og óska eftir að verða settur aftur á mælendaskrá.