149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:35]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki annað en byrjað á því að taka undir með hv. þingmanni, mér fannst þessi heimsókn hæstv. utanríkisráðherra í gærkvöldi á margan hátt undarleg. En það sem kom mér kannski mest á óvart — því að ég hef áður heyrt hæstv. ráðherra svara mönnum með tómum skætingi, það var kannski ekkert nýtt. Ég var reyndar hissa á að hann skyldi ekki svara nánast neinu heldur eingöngu beita slíkum aðferðum. Hvað um það. En það sem kom mér mest á óvart var að ráðherrann mætti til leiks án þess að flytja okkur svo mikið sem einn nýjan punkt í málinu.

Hann byrjaði á að lesa upp í hálfum hljóðum gömlu talpunktana sína úr utanríkisráðuneytinu, sem einhverjir, annaðhvort aðstoðarmenn eða embættismenn, hafa væntanlega tekið saman í fyrra. Væntanlega hafa þetta verið sömu punktar og notaðir voru til þess að útskýra fyrir þingflokki Sjálfstæðismanna að þeir þyrftu að samþykkja þetta allt saman. En í ljósi þess hve umræðan hefur þróast gríðarlega mikið frá því að ráðherrann hæstv. mælti fyrir málinu og hitti þingflokka stjórnarliðsins, reyndar á sérstökum samráðsfundi í ráðherrabústaðnum til að tryggja tryggð allra stjórnarliða við málið, og í ljósi þess hversu mikið hefur komið í ljós í millitíðinni, er ekki undarlegt að mati hv. þingmanns að ráðherrann skuli ekki hafa gert tilraun til að koma með eins og eitt útspil, eitt svar við öllum þessum athugasemdum, öllum þessum uppgötvunum sem við höfum séð frá því að hæstv. ráðherra kynnti málið fyrst?