149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:37]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Þetta hafa verið áhugaverðar umræður um umhverfisáhrif innleiðingar orkupakka þrjú. Með innleiðingunni er verið að opna leið inn á þennan sameiginlega markað og þá hafa stjórnvöld og ríkisstjórnin sagt að við þurfum ekki að hafa áhyggjur vegna þess að það sé enginn sæstrengur. Við höfum farið yfir það nokkuð vel að sæstrengurinn mun koma eftir einhver ár, ekki innan svo langs tíma, tel ég, við erum tala kannski um 10, 12, 15 ár. Það er skammur tími, og þá verða yfirráðin yfir þessu kerfi öllu á vegum Evrópusambandsins, hinni sameiginlegu stofnun sem kölluð er ACER.

En það sem ég vildi nefna, herra forseti, er að mér finnst umræðan um umhverfisáhrifin nefnilega mjög mikilvæg. Ljóst er að innleiðing orkupakkans mun auka ásóknina í nýtingu innlendra orkuauðlinda okkar Íslendinga vegna þess að menn sjá þá tækifæri til þess að geta selt orkuna á margfalt hærra verði en þeir fá fyrir hana hér á landi.

Ég sá einhvers staðar töluna 50% hækkun á raforkuverði hér á Íslandi, verði sæstrengur að veruleika. Ég held að hún gæti jafnvel orðið hærri. Það væri gott að fá greiningu hv. þingmanns á því hvað hann telur í þessum efnum og hvers vegna umhverfismálin hafa ekki fengið meiri athygli (Forseti hringir.) í þessari umræðu.