149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:06]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil víkja aðeins að því þegar sá tímapunktur kemur, og hann mun koma ekki innan svo margra ára, að lagður verður sæstrengur til landsins, til og frá landinu. Hvaða þýðingu hefur það? Það hefur þá þýðingu að þá virkjast öll ákvæði þriðja orkupakkans og þeirra pakka sem á eftir koma. Og þá erum við búin að framselja fullveldið, ef svo má segja, þegar kemur að orkuauðlindum þjóðarinnar vegna þess að þær stofnanir sem þar koma við sögu, eins og t.d. ACER, þessi sameiginlega stofnun sem kemur til með að hafa yfirumsjón og vald yfir þessum málaflokki, hún mun hafa lokaorð um það hversu mikla orku má flytja út og á hvaða verði. Við getum ekki breytt því. Við þurfum að sætta okkur við það að þrátt fyrir miklar auðlindir mun Evrópusambandið ákveða verðið á orkunni. Það hefur í för með sér að mikill hluti þeirrar framleiðslu og nýsköpunar sem er í landinu mun færa sig nær mörkuðum. Á eftir framleiðslunni og tækifærunum fer fjármagnið og síðan unga fólkið, það fylgir náttúrlega þessum tækifærum.

Þess vegna verður maður að segja að það er ekki viðskiptalega klókt að vera búinn að binda sig í einhverjar reglugerðir um að kaupandi orkunnar ákveði á hvaða verði orkan verður seld þegar hún kemur.

Um þetta hefur Viðar Garðarsson skrifað grein, sem er mjög áhugaverð lýsing á því hvernig hlutirnir koma til með að þróast þegar sæstrengurinn verður kominn, að innleiða þessa orkutilskipun og þar með leiða ACER til valda á orkuflutningssviðinu á Íslandi. Þessi þjóðhagslega afleiðing af því er tvímælalaust neikvæð, herra forseti. Það verður eftirspurn eftir orkunni inn á meginland Evrópu. Það þýðir hækkun á raforkuverði hér innan lands vegna þess að það lýtur lögmálum markaðs og eftirspurnar og varan leitar þangað þar sem verðið er hæst. Það verður verðbólguhvetjandi og ráðstöfunartekjur almennings minnka við það að samkeppnisstaða fyrirtækja mun rýrna og síðan kemur hækkun rafmagnsverðs til með að hafa áhrif á ráðstöfunartekjur almennings.

Þjóðhagslegar afleiðingar þess að innleiða þennan orkupakka sem stjórnvöld segja að hafi engin áhrif — það má kannski til sanns vegar færa að því leytinu til að strengurinn er ekki kominn. En gallinn við okkur Íslendinga er að við hugsum allt of skammt fram í tímann. Þær þjóðir, nágrannaþjóðir, sem við berum okkur saman við hugsa áratugi og vel rúmlega það fram í tímann í sínum ákvarðanatökum. Það er nákvæmlega það sem þær eru að gera með þeim hugmyndum um þennan sameiginlega markað, menn vita að það verður þörf fyrir þessa hreinu orku.

Ég verð því að segja að (Forseti hringir.) miklu dýpri umræðu þarf um þessi þjóðfélagslegu áhrif þegar sæstrengurinn er kominn og ACER fær hér öll völd.