149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:12]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef einmitt veitt þessu talsverða athygli, hvað menn hafa veigrað sér við eða reynt að komast hjá því að ræða raunveruleg áhrif orkupakkans þegar hann er að fullu kominn til framkvæmda og markmiðin með honum. Það er eins og stjórnvöldum hafi liðið ívið betur með að vera með einhverjar vangaveltur um hugsanlega fyrirvara og eitthvað þar fram eftir götunum, frekar en að ræða markmiðin með orkupakkanum og hvaða áhrif hann kemur til með að hafa þegar þau markmið nást sem pakkinn er, vel að merkja, hannaður til að skila.

En ég held að við séum í umræðum okkar í þinginu þó komin það langt að við getum hætt að velta fyrir okkur fyrirvörunum. Það hefur endanlega verið staðfest í umræðunum að þeir eru ekki til og skipta engu máli, hafa ekkert að segja. Við höfum líka komist það langt að sjá að það þokast allt í sömu átt að endanleg niðurstaða, verði orkupakkinn innleiddur, verður tenging við sameiginlega evrópska raforkumarkaðinn og af því leiðir þetta mikla vald þessarar erlendu stofnunar yfir íslenskum málum. Við getum þá vonandi horft fram á áframhaldandi árangur, að við tökum alltaf eitt og eitt skref í viðbót, af þessum umræðum hér í þinginu við það að greina áhrifin af valdatöku ACER, ef svo má segja, áhrifin af orkupakkanum þegar hann er kominn til framkvæmda.

Er hv. þingmaður sammála mér um það að vísbendingarnar sem við höfum um þessi áhrif séu mjög ískyggilegar?