149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:16]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er alveg rétt sem hv. þingmaður nefnir varðandi sæstrenginn. Það kunna einhverjir að geta fært rök fyrir því að það sé skynsamlegt og kunna að vilja jafnvel að það yrði einfaldlega ráðist í þá framkvæmd. En þeir sem eru þeirrar skoðunar, maður skyldi ætla að séu þeir um leið að hugsa um íslenska hagsmuni þá hlytu þeir að vilja að slík framkvæmd færi fram á okkar forsendum, Íslendinga, því að annars eru hætturnar margar og stórar. Ég nefni bara eina, þá hættu að þetta fari fram undir handleiðslu ACER og gerðist með þeim hætti að erlent fyrirtæki eða t.d. erlendur fjárfestingarsjóður — það hefur stór erlendur fjárfestingarsjóður á sviði orkumála verið að falast eftir kaupum á orkufyrirtækjum hér — gefum okkur það að stór erlendur fjárfestingarsjóður á sviði orkumála lýsti yfir áhuga á að leggja sæstreng hingað og væri á sama tíma að kaupa hér vatnsréttindi og jafnvel heilu orkufyrirtækin. ACER myndi framfylgja hlutverki sínu við að ryðja úr vegi hindrunum fyrir þeirri framkvæmd og þessir erlendu aðilar fengju heimildina, þeir legðu strenginn, fjármögnuðu hann, tengdu við íslenska orkukerfið, virkjuðu og tækju til við að flytja út orku, bæði orku sem þeir framleiddu í eigin nafni og orku keypta af öðrum fyrirtækjum líka. En hvað yrði eftir hér á Íslandi af ávinningnum af því ef farið yrði í þessa tengingu á þessum forsendum? Það er nú varla mikið. Eða getur hv. þingmaður linað áhyggjur mínar og bent mér á að (Forseti hringir.) þetta myndi skila Íslendingum einhverju fyrir þessa mikilvægu auðlind okkar?