149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:40]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Við höfum einmitt þráfaldlega bent á það að af okkar hálfu er ekkert því til fyrirstöðu að umræðunni um þetta mál verði skotið fyrir aftan umræðu um önnur og brýnni mál. Það liggur ekkert á að afgreiða þetta mál. Utanríkisráðherra hafði rúman tíma í gær til að sýna fram á að brýnt væri að þetta mál hlyti afgreiðslu. Skýringar hans á því voru með þeim hætti að — eiginlega af tillitssemi við hæstv. ráðherra ætla ég ekki að endurtaka það, þær voru svo hraksmánarlegar, leyfi ég mér að segja.

Ég verð að segja að mér finnst þessi tímastjórnun og þessi skýring hæstv. forseta ekki fyllilega frambærileg og ekki af því tagi sem ég hefði átt von á frá hæstv. forseta.