149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:59]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Eitt af því sem hv. þingmaður nefndi sló mig. Það er reyndar atriði sem ég hef leitt hugann að áður en hef ekki fjallað um í ræðu enn sem komið er. En þegar hv. þingmaður nefndi það rifjaðist upp fyrir mér að eitt af því sem maður hefur áhyggjur af, og reyndar umtalsverðar áhyggjur, við eðli þessa máls er, eins og hv. þingmaður nefndi, að áhrifin koma kannski ekki fram strax. Það gerir það erfiðara að útskýra hversu hættulegt málið er.

En það veldur því líka að ríkisstjórnin ímyndar sér væntanlega að hún geti bara leyft þessu að fara í gegn og svo muni þetta reddast. Það hugarfar á auðvitað oft og tíðum við og getur nýst okkur Íslendingum vel að ímynda okkur að hlutirnir reddist. En það er ekki alltaf skynsamlegt að nálgast hlutina með þeim hætti.

Það er stundum sagt að Kínverjar hugsi allt til 300 ára eða 500 ára, ég veit ekki hvað er besta viðmiðið í því. Þeir eru alla vega þekktir fyrir að hugsa til mjög langrar framtíðar og taka ákvarðanir út frá því.

Hér óttast ég hins vegar að stjórnarmeirihlutinn sé að taka ákvörðun án þess að gera sér grein fyrir langtímaáhrifum og ætli bara að láta sig hafa það því að áhrifin komi ekki fram fyrr en einhvern tíma seinna. Þá verða þau kannski hætt í ríkisstjórn og áhrifin koma í ljós, ekki skyndilega heldur jafnt og þétt, átti fólk sig jafnvel ekki á því að þetta sé afleiðing af þriðja orkupakkanum.

Er hv. þingmaður sammála mér í þessu mati, að þetta kunni að vera ein af skýringunum á því að ríkisstjórnin ætli bara að láta sig hafa það að hleypa þessu í gegn? Þau hugsi sem svo að þetta hafi kannski ekki áhrif strax og áhrifin komi bara jafnt og þétt?