149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:29]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég lít á það sem þátt í rannsókn hv. þingmanns og fyrrverandi lögreglustjóra að inna eftir viðburðum á vettvangi hv. atvinnuveganefndar. Ég get upplýst það að ekki er neinn texti í nefndaráliti sem ég minnist að hafi verið kynntur sem lagalegur fyrirvari á fundum nefndarinnar.

En þetta er náttúrlega mikið starf hjá hv. þingmanni að leggja sig fram um þetta allt saman af því að þessir lagalegu fyrirvarar streyma dálítið ótt og títt inn. Skýring hv. þingmanns suður með sjó sem er í eilítið torræðum og myrkum texta, verður að viðurkennast, á samskiptamiðli sem margir þekkja, lýsir að því er virðist af mikilli sannfæringu hverjir þessir lagalegu fyrirvarar eru.

En ég geri líka ráð fyrir að fyrir okkur hina sem eru kannski ekki jafn langt komnir í lögfræðinni og hv. þingmaður suður með sjó sé erfitt fyrir okkur að átta okkur á þessu og skilja til hlítar hvert hv. þingmaður er að fara.

En ég leyfi mér að vona að lögfræðiþekking og reynsla hv. þm. Karls Gauta Hjaltasonar (Forseti hringir.) af lögreglustörfum og lögreglurannsóknum muni duga til að upplýsa þetta mál.