149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:03]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Herra forseti. Nú ætla ég að fjalla um mál sem ég hef ekkert komið inn á áður, nánast ekki neitt, en er mjög sláandi engu að síður með tilliti til þessa þriðja orkupakka. Ég vísa í grein sem birtist í Morgunblaðinu undir yfirskriftinni EES-reglur kalla á útboð nýtingarréttar. Greinina skrifar Gunnlaugur Snær Ólafsson og hún er það merkileg þessi grein og það upplýsandi að ég ætla að fá að grípa aðeins niður í henni, með leyfi forseta. Þar segir:

„Nýtt nýtingarform vatnsfalla í eigu ríkis og sveitarfélaga til raforkuframleiðslu getur haft í för með sér að þar til gerðir nýtingarsamningar fari í útboð þegar samningstíma lýkur. Þetta staðfestir Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri. Hafa slíkir samningar þegar verið gerðir við einkarekin félög, en samningarnir munu í framtíðinni einnig vera gerðir um nýtingarrétt opinberra raforkufélaga.

Árið 2016 barst íslenskum stjórnvöldum tilkynning frá Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, um að þeim bæri að setja lög sem krefjast þess að greitt sé markaðsverð fyrir nýtingarrétt náttúruauðlinda í almannaeigu með það fyrir augum að framleiða rafmagn. Var jafnframt kveðið á um að allir gildandi samningar yrðu endurskoðaðir þannig að það sem eftir væri af samningstíma yrðu raforkufyrirtæki að greiða fyrir nýtingarréttinn. Sama ár var skipaður starfshópur fjögurra ráðuneyta til þess að bregðast við fyrirmælum ESA og starfar hann enn.“

Svo kemur millifyrirsögn: Útboð að skyldu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Reglur Evrópusambandsins um nýtingarrétt voru til þess gerðar að tryggja að sanngjarnt verð fengist fyrir nýtingu náttúruauðlindanna og var slíkt nýtingarsamningsform tekið upp innan sambandsins fyrir nokkru. Þegar nýtingarsamningar runnu sitt skeið varð þó deila milli fleiri aðildarríkja og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um hvernig bæri að endurnýja umrædda samninga og tilkynnti framkvæmdastjórnin þann 7. mars síðastliðinn að hún hefði höfðað samningsbrotamál gegn Austurríki, Frakklandi, Þýskalandi, Póllandi, Portúgal, Svíþjóð, Bretlandi og Ítalíu fyrir að hafa ekki farið í opin útboð á nýtingarrétti vatnsfalla og tilheyrandi vatnsaflsvirkjunum. Í síðasta mánuði boðuðu verkalýðsfélög í Frakklandi til verkfallla við vatnsaflsvirkjanir í eigu ríkisorkufyrirtæksins EDF í þeim tilgangi að mótmæla málshöfðun framkvæmdastjórnarinnar þar sem félögin telja að verið sé að einkavæða nýtingarrétt vatnsfalla, sem í dag eru að mestu nýttar af EDF.“

Þetta er stórmerkilegt, herra forseti. Ekki verður annað séð af þessu en að þarna sé Evrópusambandið að knýja á um einkavæðingu og að nýtingarréttur af virkjanakostum fari í útboð. Með öðrum orðum fæli þetta í sér gjörbyltingu, grundvallarbreytingu, byltingu í neikvæðri merkingu, á því fyrirkomulagi sem við höfum haft á Íslandi þar sem opinber félög hafa getað ráðist í virkjunarframkvæmdir og svo selt orkuna á viðráðanlegu verði.

Það er áhugavert að sjá að í Frakklandi skuli verkalýðsfélög hafa séð ástæðu til að boða til mótmæla gegn Evrópusambandinu og afskiptasemi Evrópusambandsins — menn litu svo á að þeir væru í raun að krefjast nokkurs konar einkavæðingar á ríkisorkufyrirtæki Frakklands.

Nú hafa ýmsir varað við því að þriðji orkupakkinn feli í sér markaðsvæðingu orkunnar og við höfum bent á, þingmenn Miðflokksins, að þetta skapaði ákveðna hættu fyrir þessi fyrirtæki sem við eigum á Íslandi í opinberri eigu. En hér erum við bara komin með raundæmið: samningsbrotamál höfðað gegn 12 Evrópuríkjum. Og þetta eru ekkert smáríki. Þetta er m.a. Frakkland, Þýskaland og Bretland, svoleiðis að við getum rétt ímyndað okkur hvar við stæðum, Íslendingar, ef við værum talin brotleg.