149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:14]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er einmitt mjög áhugaverð greining hjá hv. þingmanni. Þegar upp er staðið verður forskot okkar í starfsemi af þessu tagi farið. Það er alveg rétt að þótt orkan verði dýrari í Evrópu mun það samt vera hagkvæmara fyrir fyrirtækin að vera þar, í nálægð við markaðinn eins og hv. þingmaður nefndi réttilega. Flutningskostnaður verður lægri og ýmsir þættir sem spila inn í það. En menn gætu keypt hreina orku í Evrópu alveg eins og hér á Íslandi. Þótt hún væri dýrari í Evrópu en á Íslandi þá eru aðrir þættir sem koma þar inn í eins og hv. þingmaður lýsti. Þarna er eitthvað sem við höfum sáralítið eða nánast ekkert skoðað í þessari umræðu.

Það sýnir að málið er vanreifað. Það eru svo margir þættir sem koma þarna inn í sem við höfum ekki gefið gaum að og það er ótrúlegt. Ég held að það hljóti bara að vera leitun að því að svona stórt mál skuli eiga að fara í gegn með þessu offorsi, vil ég meina. Hér eru menn að fara alveg á taugum yfir því að við séum að ræða þetta í þaula, og hafa miklar áhyggjur af því að önnur mál tefjist o.s.frv. Ég segi nú bara: Hvaða áhyggjur hafa menn þegar svona stórt mál, sem getur og kemur til með að varða komandi kynslóðir, á að fara inn á methraða? Ég held, herra forseti, að langskynsamlegast sé í stöðunni að fresta málinu. Ég held að allir sjái það.