149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[09:10]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni hvað þetta varðar. Auðvitað á þessi saga eins og við höfum lýst henni hér að vera okkur víti til varnaðar. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni. En gleymum ekki: Hvert er upphafið að þessu öllu saman? Jú, það er einmitt markaðsvæðing orkunnar vegna tilmæla og tilskipana frá Evrópusambandinu. Þá er það orkupakki eitt og síðan orkupakki tvö. Það gerir að verkum að fyrirtækjunum er fyrirskipað að skipta upp vinnslu orkunnar, sölu og dreifingu. Það verður til þess að Hitaveitu Suðurnesja er skipt upp í HS Orku og svo HS Veitur. Þetta var upphafið að þessu öllu saman. Þá spyr maður sjálfan sig: Þegar þetta verður allt komið í gagnið, orkupakki þrjú og allt sem honum fylgir, þegar sæstrengurinn kemur, allt sem honum fylgir, þá koma kröfur um að skipta upp þessum stóru fyrirtækjum okkar sem við eigum, Landsvirkjun, Rarik.

Ég held, herra forseti, að nú sé tími til kominn að við Íslendingar lærum af sögunni, lærum af reynslunni. Frestum þessu máli. Förum vandlega yfir það. Horfum á þá þætti sem koma til með að hafa áhrif á efnahagsmál þjóðarinnar til framtíðar og á kynslóðir framtíðarinnar, raforkuverðið í landinu, þessa auðlind. Það er svo margt í þessu sem við verðum að fara mun betur yfir.