149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[10:15]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir ræðuna. Hann kom inn á punkt sem hefur í sjálfu sér lítið verið ræddur í þingsal undanfarna daga en er nauðsynlegt að taka upp. Það er hvað fjölmiðlar virðast leggja litla áherslu á að kafa ofan í þau efnisatriði sem umdeild eru í þessu máli.

Við horfum t.d. upp á fjölmiðil eins og Ríkissjónvarpið sem hefur milljarða í forgjöf fram yfir aðra fjölmiðla á markaðnum en virðist ekki til þess bær að fjalla efnislega um neitt annað en hvenær fjallað var um fundarstjórn forseta og hvort þetta heiti málþóf eða eitthvað annað, yfirborðskennd atriði. Það er ekkert kafað ofan í þessi mál sem þeir ættu þó að hafa afl og getu til að gera, hvort sem það er um fyrirvarana, hvað breyttist hjá stjórnarflokkunum, hverjir séu hagsmunir almennings í þessu, hvernig standi á því að hér eru lögð fram einhver kjarnarök fyrir innleiðingunni sem snúa að hagsmunum almennings, sem halda síðan ekki, eða hvað flutningsmönnum tillögunnar hafi gengið til.

Allt eru það spurningar sem er bara sanngjarnt og eðlilegt að fjölmiðill spyrji. Ég hef ekki séð ríkisfjölmiðilinn, þann ágæta miðil, sem hefur þó fjárhagslega getu og slagkraft í ljósi mikilla framlaga í gegnum nefskattinn annars vegar og hins vegar yfirburðastöðu á auglýsingamarkaði, gera neina atlögu að því að kafa í neitt af þeim atriðum sem hér eru umdeild.

Mig langar til að heyra sjónarmið hv. þingmanns: Telur hann þetta miðlinum til sóma? (Forseti hringir.) Telur hann það ekki sanngjarna og eðlilega kröfu, bæði fyrir stjórnmálamenn og hinn almenna borgara, að miðill eins og ríkismiðillinn leggi í slíka vinnu?