149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[10:22]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Við aðrar aðstæður væri eðlilegt að klára svona mál eins og orkupakka þrjú ef við vissum ekki til hvers væri ætlast af okkur í framtíðinni. En nú búum við svo vel að geta séð það, krufið það, velt því fyrir okkur, rannsakað það, fengið álit sérfræðinga, stjórnskipunarfræðinga, hagfræðinga. En ekkert af þessu velja fylgismenn þessa máls að gera.

Hvað þýðir t.d. orkupakki fjögur í beinu framhaldi af orkupakka þrjú? Það eru mál sem eru nátengd og elta hvort annað. Er verið að markaðsvæða orkuna enn frekar? Ætlar Vinstrihreyfingin – grænt framboð bara að kokgleypa orkupakkana í framtíðinni þó að þeir flytji enn þá meira af völdum til yfirþjóðlegrar stofnunar og markaðsvæðingin verði enn þá meiri? Hafa þeir ekki neinar áhyggjur af því að Ísland geti í framtíðinni mögulega ekki haft áhrif á hvort hér verði raforka niðurgreidd til garðyrkju eða heimila?

Það eru allt spurningar sem vert er að spyrja sig. Það er svolítið sérstakt að menn vilji ekki nota tækifærið sem þeir hafa.

Eitt er í orkupakka fjögur sem fjallar um orkunýtni bygginga. Inn á það er komið í áliti Samtaka iðnaðarins. Hverju er verið að breyta þar? Hvaða áhrif hefur það á Ísland? (Forseti hringir.) Verður tekið tillit til þess hvernig við byggjum okkur hús og kyndum þau, svo dæmi sé tekið? Eða skiptir það engu máli? (Forseti hringir.) Er samanburðurinn réttur sem þar verður?