149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

fjórði orkupakkinn og sæstrengur.

[15:08]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Þetta svar veldur mér nokkrum áhyggjum. Í fyrsta lagi spyr maður hæstv. ráðherra: Er Alþingi treystandi til að stöðva innleiðingu þriðja orkupakkans og koma í veg fyrir allar þær hættur sem hann hefur í för með sér? Viðhorf hæstv. forsætisráðherra, sem lýst var hér í svari, að það sé bara eðlilegt að eitt taki við af öðru, að við klárum bara þriðja orkupakkann og bíðum fram eftir því að sá fjórði fari í hefðbundið ferli, felur í sér að þá koma væntanlega hæstv. ráðherrar og útskýra fyrir okkur að óhjákvæmilegt sé að innleiða hann fyrst við höfum innleitt þann þriðja. Þetta er ekki skynsamleg nálgun þegar um er að ræða mál sem varðar grundvallarhagsmuni þjóðarinnar.

Hafi menn velkst í vafa um að þetta geti skapað einhverjar hættur ætti þessi grein í Sunday Times í gær að vera til þess fallin að eyða slíkum vafa.

Og þar sem hæstv. ráðherra segir að allir lögfræðingar hafi verið sammála um að ekki sé hægt að krefjast lagningar sæstrengs vitna ég bara aftur í það sem ég las áðan þar sem bent er (Forseti hringir.) á að einkaaðilar geti höfðað samningsbrotamál, eins og til að mynda þeir sem fjallað er um í Sunday Times.