149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:15]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég ætla í næstu ræðu að ræða lítillega í framhaldi af orðum hæstv. forsætisráðherra áðan um að flestir, ef ekki allir lögfræðingar, hafi mælt með þeirri leið sem ríkisstjórnin er að fara í þessu máli, að þá er eins og enginn af ráðherrum og/eða forystumönnum ríkisstjórnarinnar hafi lesið það sem Eyjólfur Ármannsson lögfræðingur hefur látið frá sér fara um þetta efni. Ég mun væntanlega koma að því í næstu ræðu.

En í þessari ræðu langaði mig einkum til að fara yfir það sem við vitum enn þá að virðist skipta máli, pólitískt, í þessum efnum. Svo virðist sem ríkisstjórnarflokkarnir — ég þarf ekki að tala um samfylkingarflokkana, þeir eru náttúrlega æstir og uppvægir í þetta þannig að ekki er von á neinni iðrun þar — eigi nokkuð erfitt með þetta mál. Það sást kannski drýgst í því að Sjálfstæðisflokkurinn lagði allt kapp á að málið yrði útrætt áður en kom til sérstakra hátíðahalda vegna 90 ára afmælis flokksins nú um helgina. Við sáum á tíðindum þeirra daga hvað málið gengur nærri Sjálfstæðisflokknum. Og við sjáum það m.a. á því að formaður Sjálfstæðisflokksins sendir flokksmönnum sínum afmælis- og hátíðarkveðju í Fréttablaðinu. Hver hefði átt von á því, herra forseti, að það myndi gerast? Á sama tíma kemur út sunnudagsblað eða helgarblað Morgunblaðsins þar sem ekki er minnst á 90 ára afmæli Sjálfstæðisflokksins frekar en hann væri ekki til.

Þetta þýðir, herra forseti, að svo virðist sem leiðir Sjálfstæðisflokksins og Morgunblaðsins séu nú skildar og ekki veit ég hvort margir hefðu átt von á því. Að öllu leyti er þetta mál því mjög erfitt og það er svo sérstaklega þungbært að hæstv. fjármálaráðherra fór beint úr hátíðahöldunum á fund páfa í Róm, sjálfsagt til að sækja sér einhverja huggun út af málinu.

En ég ætla líka að minnast á það sem hefur haft áhrif á annan ríkisstjórnarflokk, þ.e. Framsóknarflokk, það er þessi sem er með belti og axlabönd, í smekkbuxum og með álímdan hártopp og er í nýjum skóm, eins og hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir orðaði það svo vel. Mér finnst þessi lýsing mjög góð. Það eina sem vantar upp á, að mínu áliti, er rautt trúðsnef. Þá væri myndin af flokknum alveg 100%. En sá flokkur þorir ekki að halda miðstjórnarfund fyrr en málið er frágengið og lét fresta miðstjórnarfundi sínum sem átti að vera núna í maí fram yfir mánaðamót til þess væntanlega að ráðherrar og forystumenn sama flokks þyrftu ekki að skýra málið út fyrir fylgismönnum sínum, sem eru jafnmikið á móti málinu og fylgismenn Sjálfstæðisflokksins eru á móti því. Og með því að gera það slógu Framsóknarmenn út af borðinu svokallaða þingveislu, sem er nú allt í lagi, en yfirleitt hafa stórskaðar orðið til þess að þingveisla, sem er 150 ára gamalt fyrirbæri, hafi ekki verið haldin. Það var t.d. í kjölfar efnahagshruns á Íslandi, og nú vegna þess að Framsóknarflokkurinn þorir ekki að halda miðstjórnarfund. Þetta eru ástæðurnar fyrir því að það gerist.

En því segi ég þetta? Málið er — ég ætla ekki að ræða um Vinstri græn alveg að sinni — að ríkisstjórnarflokkarnir vita að baklandið þeirra er gjörsamlega á móti þessu máli. Gjörsamlega. Þess vegna beita þeir alls konar undanbrögðum til að losna við það að horfast í augu við kjósendur sína, baklandið sitt, út af þessu máli vegna þess að þeir þora það ekki. — Og vegna þess að nú er í salnum góður þingmaður Vinstri grænna stend ég við það að fara aðeins yfir (Forseti hringir.) aðkomu þess flokks að málinu í næstu ræðu minni.