149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:23]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Jú, ég átti eiginlega jafnvel von á því að þingmenn Sjálfstæðisflokksins myndu koma til umræðunnar í dag vegna þess að ég trúi ekki öðru að allir þeir flokksmenn sem þeir hittu um helgina yfir kaffi og rjómatertum hafi örugglega talað þeim orð eyra út af þessu máli.

Þegar fyrir liggur að Íhaldsflokkurinn í Bretlandi er kominn í svona framsóknarfylgi, þá held ég að menn hljóti að hugsa sig um hvort sama geti ekki átt við um Sjálfstæðisflokkinn hér heima, sem sígur sífellt niður á við í skoðanakönnunum og er núna búinn að missa einn bakhjarl og málpípu, virðist vera, þ.e. Morgunblaðið. Ég held einmitt að það sama hafi orðið upp á teningnum á Íslandi eins og í Bretlandi, þ.e. að ríkjandi stjórnmálastétt hlustar ekki á almenning.

Svo ég segi það aftur sem ég sagði áðan, af því að menn eru að tala um að við séum að tala hér hver við annan en við erum náttúrlega að tala við fólkið sem er að horfa, 6.000–8.000 manns á góðum degi, og við verðum vör við það vegna þess að við fáum svo mikla hvatningu og margar kveðjur frá fólkinu sem er hér, og hefur verið fjölmennara hér á þingpöllum alla síðustu viku heldur en þingmenn í sal, sem er út af fyrir sig merkilegt.

Þess vegna veltir maður fyrir sér: Hvað þarf til að koma til að þessi stjórnmálastétt á Íslandi sem hlustar ekki á almenning, hlustar ekki á bakland sitt, hlustar ekki á kjósendur sína; hvað þarf til til að þeir sömu aðilar geri það? Kannski þarf einn góðan kosningaskell til þess arna, en þá held ég að það gæti verið orðið um seinan fyrir þessa sömu stjórnmálastétt. En ég græt (Forseti hringir.) svo sem þurreygður yfir því. En vissulega getur svona atburður endurtekið sig hér.