149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:37]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Það er ekki nóg með að umræddur fjárfestir geti mögulega nýtt sér innihald þriðja orkupakkans til að fara í málsókn gegn íslenska ríkinu, hvort sem það er vegna samningsbrota eða einhvers annars — það getur verið röng innleiðing eða hindranir eða misskipting eða hvað eina sem mönnum dettur í hug. Þá má heldur ekki gleyma því að hinn svokallaði orkupakki fjögur, fjórði orkupakkinn, getur mögulega kallað á enn fleiri möguleika fyrir viðkomandi fjárfesti að höfða mál gegn íslenska ríkinu verði sá pakki innleiddur með sama fyrirkomulagi og hér virðist eiga að gera, þ.e. með einhverjum sjónhverfingum og án þess í raun að kafa djúpt ofan í hvaða áhrif það getur haft.

Það var minnt á það hér í ræðum í dag að í neðanmálsgrein í áliti þeirra Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts er bent á og sérstaklega tekið fram að þó að önnur ríki muni viðurkenna það sem Ísland er að reyna að komast hjá, eða þennan fyrirvara svokallaða, þá bindur það ekki á neinn hátt einkaaðila eða lögaðila sem geta samt sem áður höfðað mál gegn íslenska ríkinu.

Og er þá ekki rétt, hv. þingmaður, að ætlast til þess að heildarmyndin sé skoðuð, áhættan sé metin í heild, að fengnir séu sérfræðingar til að meta sérstaklega hvort fjórði orkupakkinn hafi einhvers konar fylgniáhrif, ef þannig má orða það, eða auki mikilvægi þess að við skoðum vandlega orkupakka þrjú vegna þess að tengingin er þarna augljóslega á milli.

Það er líka sjálfsagt að spyrja hv. þingmann hvort það hafi verið rætt einhvern tímann á fundum formanna stjórnmálaflokka að þetta mál sé mikilvægt í einhverjum skilningi þess orðs fyrir land og þjóð.