149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:14]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég vil í byrjun ræðu minnar botna síðara andsvar hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar og setja fram þá afstöðu mína að það verður ólíklega til mikils gagns að segja við Evrópusambandið síðar: Æ, æ, ég misskildi sjálfan mig, ég hélt að þetta væri öðruvísi, eins og þingmaðurinn kom inn á. — Velkominn í salinn, hv. formaður utanríkismálanefndar, ánægjulegt að fá þig inn í hóp okkar Miðflokksmannanna sem hér sitjum. Það er ánægjulegt að ritari Sjálfstæðisflokksins sé kominn í salinn og ég ítreka afmælisóskir mínar til flokksins sem fram voru settar fyrir helgi.

Það sem mig langar að koma inn á í þessari ræðu minni er tengt pólitíkinni almennt og það er spurningin: Um hvað var kosið? Því er haldið fram núna að það sé svo mikill meiri hluti á þingi fyrir málinu að það sé nauðsynlegt að leiða fram hinn lýðræðislega vilja. Gott og vel.

Allar þær kannanir sem gerðar hafa verið benda til þess að meiri hluti landsmanna sé andvígur þessari innleiðingu. Þar er lægsta talan 48%, held ég og upp í 85% sem talan er hæst í könnunum. Hvað sögðu flokkarnir sem nú mynda ríkisstjórn fyrir kosningar? Hvað sögðu þeir í kosningabaráttunni? Eru einhverjar líkur til þess að atriðið sem réði ákvarðanatöku þeirra ágætu kjósenda sem léðu þessum þremur flokkum atkvæði sitt hafi verið að flokkarnir ætluð að stuðla að innleiðingu þriðja orkupakkans í íslenskan rétt? Trúir því nokkur maður að einn einasti kjósandi allra þessara þriggja flokka hafi látið atkvæði sitt ráðast út frá því að þeir ætluðu að innleiða þriðja orkupakkann? Það dettur ekki nokkrum manni í hug. Vinstri grænir voru einfaldlega grjótharðir á móti orkupakka eitt og tvö þegar þeir voru innleiddir. Til sanns um það liggja hér ræður uppskrifaðar sem er hægt að hafa töluverða skemmtun af að lesa samanborið við það sem nú er borið á borð. Það er útilokað að einhver kjósandi Vinstri grænna hafi látið atkvæði sitt ráðast út frá því að Vinstri grænir ætluðu að koma þriðja orkupakkanum í gegn.

Hvað Framsóknarflokkinn varðar er eiginlega alveg útilokað að nokkur stuðningsmanna Framsóknarflokksins í síðustu kosningum hafi látið atkvæði sitt ráðast út frá því að Framsóknarflokkurinn ætlaði að tryggja það með ráðum og dáð að þriðji orkupakkinn næðist í gegn, það skyldi allt lagt undir. Því trúir auðvitað ekki nokkur maður.

Síðan að því sem er kannski sárast í þessu, það sama held ég að eigi að við um hinn ágæta nýníræða Sjálfstæðisflokk. Þar held ég að þeir séu sárafáir og sennilega engir sem létu það ráða ákvörðun sinni um að styðja Sjálfstæðisflokkinn í síðustu kosningum að flokkurinn ætlaði með ráðum og dáð að tryggja að þriðji orkupakkinn yrði innleiddur í íslenskan rétt.

Allt sem þingmenn þessara þriggja flokka sögðu í aðdraganda kosningabaráttunnar og í kjölfar hennar raunar líka, held ég að mér sé óhætt að segja, benti til þess að í þessum flokkum væri fullkominn efi um að skynsamlegt væri að hnika þessu máli áfram. Nú er talað um að nú þurfi að leiða hinn lýðræðislega vilja í ljós, af því að það séu svo margir þingmenn áhugasamir um að klára málið og láti ekki berja á sér öllu lengur. Er það lýðræðið? Ég er ekki viss um að margir upplifi að það sé leiðin að hinu besta lýðræði að segja eitt, þrír heilir flokkar í aðdraganda kosninga, kúvenda síðan og segja akkúrat „omvendt“ þegar kemur að því að innleiða þessar reglur sem engar líkur eru á að neinn stuðningsmanna þessara þriggja flokka hafi látið ráða því að þeir greiddu flokkunum atkvæði í síðustu kosningum.