149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:24]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég held einmitt að þessi frétt sem birtist í Times, sem er virtur miðill í Bretlandi, sýni einmitt þá gríðarlegu hagsmuni sem eru í þessu mál og þá miklu hagsmuni sem eru af því að stjórnvöld samþykki orkupakka þrjú og verði partur af þessu sameiginlega verkefni, sameiginlegu markaðssvæði Evrópu. Hér segir t.d. í fréttinni að þetta sé fjárfesting upp á 2,5 milljarða punda, sem samsvarar u.þ.b. 400 milljörðum íslenskra króna, og markmiðið sé að reka sæstreng sem flytji orku frá Íslandi til Bretlands. Hér kemur fram að bandaríski bankinn JP Morgan hafi veitt ráðgjöf og að verkefninu standi 25 fjárfestar sem taki þátt í innviðafjárfestingum og séu mögulega reiðubúnir að taka þátt í þessu verkefni. Hafa ber í huga að þetta verkefni, ef af yrði, er styrkhæft frá Evrópusambandinu. Hér sjáum við hvað þetta verkefni er komið langt.

Má ekki álykta sem svo að fyrst stjórnvöld leggja svona mikla áherslu á að koma þessu í gegn og setja einhvern fyrirvara sem er einhliða um að ekki verði lagður sæstrengur, þá verði jafn auðvelt og einfalt að afnema þessi lög, fella þau úr gildi og heimila sæstreng ef þrýstingurinn er svona verulegur, verkefnið er komið þetta langt, fjárfestar tilbúnir, fjármögnun hugsanlega tilbúin? Er þá ekki sú hætta fyrir hendi að íslensk stjórnvöld líti svo á að það sé kominn mikill þrýstingur á það að við afnemum (Forseti hringir.) þessi lög sem banna sæstreng? Verður það ekki bara veruleikinn fljótlega eftir að þetta sæstrengsverkefni er tilbúið?