149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:49]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í upphafi fyrirspurnar sinnar nefndi hv. þingmaður tvo hluti í sömu andrá, annars vegar þriðja orkupakkann og hins vegar lagningu sæstrengs. Ég er þeirrar skoðunar að lagning sæstrengs myndi hækka raforkuverð á Íslandi til heimila og fyrirtækja. Það er mitt einlæga álit og það er meðal ástæðnanna fyrir því að ég er ekki hlynntur lagningu sæstrengs. Það er hins vegar ekki til umræðu hér heldur þriðji orkupakkinn. Ef svo illa færi að lagður yrði sæstrengur hygg ég að þær reglur sem eru í þriðja orkupakkanum yrðu frekar til þess að halda orkuverði niðri með því að tryggja meira gagnsæi, betri neytendavernd og meiri samkeppni. Um það snýst pakkinn.

Svo er líka annað með verð sem við verðum að hafa í huga. Við getum ekki bara litið á verðið einhverjum vikum eða mánuðum eftir að breytingin á sér stað vegna þess að eðlisbreytingin getur verið til þess fallin að halda í skefjum hækkunum sem annars hefðu orðið. Það er erfitt að greina þetta en það litla sem ég hef lesið um þróun orkuverðs bendir til þess að hækkunum hafi verið haldið í skefjum vegna aukinnar samkeppni. (Forseti hringir.) Ég sel það ekki dýrara en ég keypti en ég vil bara nefna að við verðum að líta á raforkuverð og þróun þess út frá öllum tímanum sem liðið hefur.