149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:24]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er náttúrlega ekki hægt annað en að taka undir með honum um að það er í hæsta máta kaldhæðni af hálfu örlaganna að setja okkur í þá stöðu að vera að fjalla um þetta mál þar sem samningsbrotamál gæti verið fyrir augum á sama tíma og við erum að glíma við afleiðingar af samningsbrotamáli í kjötinu, eins og hv. þingmaður minntist á. Það mál hefur haft öll þessi einkenni sem hv. þingmaður nefndi. Teknar eru upp gerðir Evrópusambandsins og því fylgja þjóðréttarlegar skuldbindingar. Talið er að við höfum ekki rækt þær þjóðréttarlegu skuldbindingar með fyllilega lögmætum hætti og þess vegna kveður EFTA-dómstóllinn upp dóm þess efnis og á þeim grundvelli er Hæstiréttur Íslands búinn að fella þungar skaðabætur á ríkissjóð til einkaaðila vegna þessara samningsbrota gagnvart Evrópusambandinu.

Herra forseti. Þessi saga sýnist endurtaka sig, a.m.k. er veruleg hætta á því. Og þeir, svo að ég vitni aftur í neðanmálsgrein 62 á bls. 35 í margtilvitnuðu áliti Friðriks Árna og Stefáns, segja um samningsbrotamál gegn Íslandi:

„Slík staða gæti reynst Íslandi erfið.“

Það er ekki einu sinni að haft hafi verið fyrir því að meta hversu erfið sú staða gæti orðið, hvaða fjárhæðir gæti verið um að tefla, en hætt er við að það yrðu hærri fjárhæðir en þeir 3 milljarðar sem voru dæmdir hér á dögunum þegar um er að ræða verkefni (Forseti hringir.) upp á 400 milljarða.