149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:50]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lít ekki svo á að EES eða ESB séu sameinaðar heildir sem standi sameinaðar gegn íslenskum hagsmunum eða Íslandi. Við erum í EES, við erum hluti af þessu og Noregur er það líka og önnur lönd. Þegar farið er út í þessi gildi eru þau hugsuð fyrir alla aðila sem eru hluti af því bandalagi, hvort sem um er að ræða ESB eða EES. Með öðrum orðum, það er hægt að nota þessi hugtök með hliðsjón af markaðskerfinu í heild sinni. En hér reynir kannski pínulítið á hugmyndafræði vegna þess að ég á svolítið erfitt með hugtök eins og sósíalisti og kapítalisti vegna þess að mér finnst þau svo óljós, það er svo margt eldfimt í þeim sem ég kannast ekki við að trúa.

Að því marki sem ég aðhyllist kapítalíska kenningu get ég það einungis að gefnum nokkrum grundvallarskilyrðum. Eitt af þeim skilyrðum er gagnsæi, að ljóst sé hvernig reglurnar og hlutirnir virki, að ekki sé einokun á upplýsingum. Annað er samkeppni. Ég hef enga trú á kapítalisma þar sem einn stór aðili er á markaðnum sem ræður verðinu og þjónustunni og neytendur hafa enga raunhæfa leið til að hafa lýðræðisleg áhrif á það. Það eru markmiðin sem eru hugsuð með því að hafa þetta stóra markaðssvæði, þetta 500 milljóna manna markaðssvæði sem Evrópusambandið er. Það er til þess að mega draga úr hindrunum sem ríkisstjórnir setja, þ.e. tollum, flóknum reglum og því um líku, sem hindra eðlileg viðskipti. Með því að draga úr því má ná fram aukinni skilvirkni, meira gegnsæi, meiri neytendavernd og betri samkeppni. Það er heili punkturinn.

Það er aðferðin sem ég sé notaða hérna, mér finnst hún málefnaleg og góð, og ég þekki engin málefnaleg rök fyrir að fara ekki þá leið, að því gefnu að yfir höfuð sé verið að eiga þessi viðskipti til að byrja með. En það er spurning um lagningu sæstrengs, ekki þriðja orkupakkans.